21.10.2010 | 14:58
Meira um tillögur mannréttindanefndar
Nú er ég búin að hugsa og hugsa og velta fyrir mér eins mörgum hliðum á þessu máli og ég mögulega get fundið. Þegar þessi umrædda tillaga kom fyrst fram var ég strax mótfallin henni og það af ýmsum ástæðum, engin þeirra var þó sú að landið okkar myndi hætta að trúa og kirkjan verða tóm ef prestar fengju ekki að tala við skólabörn.
Margar af þeim ástæðum sem ég taldi til hafa hinsvegar verið felldar í gegn um umræður samfélagsins síðustu daga og ekki síst af Margréti Sverrisdóttur sjálfri sem dró í land með nokkrar staðreyndir í Fréttablaðinu í gær. Þar stendur:
Hún [Margrét Sverrisdóttir] segir að ekki sé verið að gera aðför að íslenskri menningu eða hátíðarhaldi almennt. Mögulega hafi tillögurnar um að hætta sálmasöng í skólum ekki verið hugsaðar til enda. Margir þeir trúarlegu sálmar sem sungnir eru í kringum jól séu vissulega hluti af íslenskri hefð og menningu.
Líklega þarf að skilgreina íslenska menningu frekar," segir hún og bendir á að til að mynda sé ekki hægt að taka Jesú úr jólunum
Ég kom líka með þau rök að ég vildi gjarnan sjá aðila úr öðrum trúfélögum koma inn í skólana með kynningar á sínu starfi og sinni trú til að auka opna umræðu og fræðslu um mismunandi trú og menningu. Sú tillaga fékk ekki góðan hljómgrunn sökum þess að þá væri lítill tími eftir til að sinna öðru og hefðbundnara námi. Þau rök varð ég að taka góð og gild sérstaklega í ljósi þess að stöðugt er verið að skera niður á menntun þessa dagana og skólastundum hefur fækkað undanfarin árin.
Að mínu mati má ekki við mikið meiri röskun á þeim litla tíma sem eftir er.
Ég fór þá að velta fyrir mér afhverju er ég þá samt svo hörð á því að kirkjan mín fái að koma inn í skólana ef ekki er tími fyrir hina söfnuðina að koma. Hvað gefur minni kirkju sérstöðu?
Í fyrsta lagi er það fjöldinn, meirihlutinn tilheyrir þessari kirkju sem er okkar ríkiskirkja en það finnst mér þó ekki vera nægileg rök fyrir að hleypa kirkjunnar fólki inn í skólann. Hinsvegar eru prestar og djáknar eitthvað það besta fagfólk sem við Íslendingar eigum í alhliða sálusorgun og áfallahjálp. Mannréttindaráð vill fá fagfólk í að sinna þessum störfum en staðreyndin er bara sú að við eigum ekki betra fagfólk en einmitt þá sem eru að sinna þessu núna. Hugsanlegt er að sálfræðingar og geðlæknar gætu sinnt þessu hlutverki en prestarnir hafa ýmislegt fram yfir þá að færa.
Þegar prestur eða djákni hefur komið reglulega í heimsókn í skólann og skólinn hefur farið einu sinni á ári í heimsókn í kirkjuna eru komin ákveðin tengsl á milli. Börn og starfsfólk skólans þekkir prestinn og á ekki jafn erfitt með að leita til hans og einhvers sálfræðings sem það ekki þekkir. Presturinn (eða djákninn) getur þá á auðveldari hátt komið inn í erfið mál sem upp koma. Höfum í huga að það er ástæða fyrir þvi að í hvert sinn sem lögregla þarf að fara í heimahús að tilkynna um dauðsfall er ávallt hafður prestur með í för. Ekki sálfræðingur, heldur prestur.
Þar fyrir utan er þjónusta prestsins frí en ekki sálfræðingsins. Eina leiðin til að fá sálfræðing til að verða jafngildan prestinum í svona áföllum í bekkjum er ef sálfræðingurinn er í vinnu hjá skólanum og hittir nemendur reglulega svo allir viti hver hann er. Þá myndi ekki duga að nota venjulega skólasálfræðinginn því þeir eru yfirleitt sérmenntaðir í þroskasálfræði, sérþörfum barna og fleiru menntatengdu en ekki endilega áfallasálfræði. Ef ráða ætti sérmenntaðan einstakling til að sinna svona málum í skólanum myndi það hafa mikinn kostnað í för með sér og á meðan ekki er hægt að borga kennurum betri laun en nú þegar er og ekki er hægt að leyfa þeim að taka aukavinnu til að mæta með bekknum á bekkjarkvöld sé ég ekki að hægt sé að setja peninga í slík verkefni. Afhverju þá ekki að halda áfram þessari samvinnu við prestana og nýta þeirra sérþekkingu án endurgjalds?
Þá komum við inn á umburðarlyndið og mannréttindi einstaklingsins sem ekki er kristinn. Þetta er jú það sem málið á að snúast um. Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að engin mannréttindi séu brotin við það eitt að fá prest í heimsókn sem ræðir við börnin. Presturinn kemur ekki inn til að heimta eitt eða neitt af börnunum og fylgir ævinlega þeim línum sem honum eru settar. (sjá hér: http://www.rvk.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/menntasvid/pdf_skjol/utgafur/leikskolar/ymislegt/truar-_og_lifsskodunarh_pa.pdf ) Ég sé ekki að nein mannréttindi væru brotin á mínu kristna barni ef múslími kæmi inn til að ræða við bekkinn svo lengi sem hann fylgdi þessum línum sem lagðar eru fram í áðurnefndri skýrslu.
Umburðarlyndið held ég hinsvegar að bíði skaða ef þessar tillögur verða gerðar að veruleika. Börn læra umburðarlyndi ekki vel uppúr bókum og klípusögum sem notaðar eru í lífsleikni einu sinni í viku. Þau læra umburðarlyndi á að umgangast önnur börn og fólk sem er á einhvern hátt frábrugðið þeim sjálfum í hugsun, hegðun, útliti eða getu. Þetta sést best ef horft er á tvo bekki þar sem í öðrum þeirra er fatlað barn en í hinum eru allir heilbrigðir. Ég vann t.d. á leikskóla þar sem voru tvær eldri barna deildir (3-6 ára). Á annarri þeirri var mikið einhverfur drengur með þroska á við barn á fyrsta ári. Það var merkilegt að horfa á hvað samskipti barnanna á þeirri deild voru mikið fallegri og umburðarlyndari en á hinni deildinni. Þar voru sessunautarnir dæmdir hart fyrir að kunna ekki að teikna almennilegan bíl eða geta ekki búið til flottan hund úr leirkubbi. Sama hvað leikskólakennarnarnir reyndu að skerast í leikinn og segja að þetta væri fínt hjá öllum. Það dugði ekki til. Á deild einhverfa drengsins sátu börnin saman og teiknuðu og hrósuðu hvert öðru og sér í lagi honum sem ekkert gerði nema línur á blað. Þau voru hæst ánægð með sig og sögðu: Við erum sko listamenn!
Í garðinum voru þessi börn líka snögg að passa upp á vin sinn ef krakkarnir af hinni deildinni ætluðu eitthvað að fara að stríða honum.
Af þessari ástæðu er ég mjög hlynnt því að getublanda í bekki og hafa fatlaða einstaklinga í bland við heilbrigða (ég er reyndar á þeirri skoðun að það þurfi fleiri kennara og færri nemendur í hvern bekk til að það geti gengið almennilega upp en það er allt annar pistill).
Alveg eins og börnin læra best að bera virðingu fyrir fötluðum einstaklingum þegar þau þekkja einhvern slíkan læra þau líka best að virða ólíkar trúarskoðanir ef þau fá tækifæri til að kynnast fólki og börnum með skoðanir ólíkar þeirra eigin. Þegar nokkrir nemendur geta ekki tekið þátt í kirkjuferðinni og fara í önnur verkefni á meðan er þar kominn tilvalinn grundvöllur til að ræða afhverju þau fara ekki í kirkjuna og hvaða lífsviðhorf eða trúarskoðun sé þar að baki.
Þar fyrir utan er nokkuð ljóst að ef enginn á að upplifa sig utanveltu í skólanum þarf að fara mikið lengra með þessar breytingar og langt útfyrir það sem flestir eru tilbúnir til að sætta sig við. Börn Votta Jehóva munu ennþá eiga erfitt í kringum jólin þegar þau fá ekki að föndra eða mæta á litlu jólin. Þau munu ennþá eiga erfitt með að útskýra afhverju þau fá ekki jóla- eða afmælisgjafir og afhverju þau bjóða aldrei neinum í afmæli. Múslímskar stúlkur munu enn eiga erfitt með að vera einu stúlkurnar í skólanum sem eru með slæður yfir hárinu og þau múslimabörn sem fasta í Ramadan mánuði gætu átt erfitt með að útskýra afhverju þau borða ekki mat yfir daginn með hinum nemendunum. Börn sem eru grænmetisætur eiga enn erfitt með að útskýra afhverju þau borða ekki gúllasið í hádeginu eða afhverju þau vilja ekki pepperóní á pizzuna sína og svona mætti lengi telja.
Bloggvinir
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er mjög góð og málefnaleg umfjöllun. Hafðu þökk fyrir það
Jón Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 15:27
Enga presta/trúboð í skóla; Thats the end of it.
Ef ísland gerir þetta ekki sjálfviljugt, þá verður ísland dæmt til að taka þetta út; Svo einfalt er það.
Tvískynnungur... í einum pistli talar þú um að við verðum að virða mannréttindi samkynhneigðra.. í þeim næsta styður þú við trúarinnrætingu á börnum í skólum þessa lands; Trúarinnrætingu sem kallar eftir fordómum gegn samkynhneigðum.. ekki bara þeim, heldur öllum sem eru ekki kristnri; Þetta stendur í biblíu; Það að þú hafir kosið að hundsa þetta í biblíu er sorglegt.
Hér eru kirkjur og skrauttrúarbyggingar um allan bæ, er það til of mikils mæst að þið krissarnir farið þangað eftir skóla, eða á sunnudögum; Eða er það of mikið vesen fyrir ykkur..
Ef þið nennið ekki að innræta þessari vitleysu í börnin ykkar.. þá er best að sleppa því, í stað þess að vera með afsakanir og fyrirslátt.
Málið er einfalt; Prestar og aðrir trúboðar hafa EKKERT erindi inn í skóla; Það er bara frekja og yfirgangur að ætlast til þess að þið fáið sérmeðferð vegna eigin leti í að ala um kristnu börnin ykkar.
doctore (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 15:47
Hugsaðu um þetta: Sjálfsmorðsalda unglinga í usa er einna helst að kenna?
Kristni
Ofsóknir gegn samkynhneigðum í Afríku.. hverjum er það einna helst að kenna?
Kristnum
Það nýjasta frá Uganda
http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2010/10/19/AR2010101903438.html
Hvers vegna berstu ekki fyrir mannréttindum... það sem þú ert að gera er að berjast fyrir þínum SÉRRÉTTINDUM, sérréttindum til að trakða á minnihlutahópum vegna áhugamáls þíns um galdra
doctore (IP-tala skráð) 21.10.2010 kl. 15:55
Þó að þetta sé allsendis ótengt pistlinum hér að ofan vil ég að það sé alveg á hreinu hverjar mínar skoðanir eru og það sér í lagi til að hinn ágæti doctore hætti að leggja mér orð í munn:
Ég trúi á Guð og ég trúi því sem Biblían kennir. Ég les hinsvegar Biblíuna í því samhengi sem hún var skrifuð. Á tveimur stöðum í Biblíunni er talað um samkynhneigð. Á öðrum staðnum er það í Gamla Testamentinu (3. Mósebók) þar sem verið er að banna Ísraelsmönnum að eyða sæði. Ísraelsþjóð var að deyja út og það var þörf á fjölgun hjá þjóðinni og því var karlmönnum bannað að sofa hvorum hjá öðrum, rjúfa samfarir, stunda sjálfsfróun og fleira sem gæti annars orðið til þess að nýr einstaklingur myndi bætast í hópinn. Þar sem fólksfjöldi í þessum heimi er kominn langt yfir öll mörk eiga þessi rök enganveginn við dag.
Á hinum staðnum er umræðan í Nýja Testamentinu í Rómverjabréfinu þar er verið að ávarpa stórt vandamál sem var í Rómarveldi á þeim tíma þar sem fullorðnir karlmenn voru með hópa af smástrákum og notuðu þá. Karlmaður í Róm mátti ekki hafa mök við annan karlkyns einstakling nema sá væri lægra settur en hinn, helst þræll eða ungur drengur. Þetta flokkast í dag undir misnotkun og öllu siðmenntuðu fólki þykir slík misnotkun ógeðfelld og nánast ófyrirgefanleg.
Ég trúi því statt og staðfastlega að Guði elski hvern mann og sjái ekkert að því ef tveir einstaklingar af sama kyni elska hvorn annan og kjósa að lifa lífi sínu saman. Þessvegna fangnaði ég því innilega þegar íslenska þjóðkirkjan tók af skarið og hóf að gifta samkynhneigða og starfar nú með ein hjúskaparlög.
Það er hægt að finna fávita á öllum stöðum minn kæri doctore og það að margir söfnuðir víðsvegar um heiminn séu á móti samkynhneigðum og geri þeim lífið leitt þýðir ekki að allir kristnir séu þeim sammála. Reyndar standa flest kristin samfélög á Íslandi mín megin við línuna - meira að segja Gunnar í Krossinum tekur vel á móti samkynhneigðum þessa dagana.
En ég er búin að taka ákvörðun um að svara þér ekki meira minn kæri fyrr en þú ferð að róa þig og koma með málefnaleg svör. Þú slettir bara fram fullyrðingum í hinar og þessar áttir, til þess gerðar að særa, hneyksla og espa fólk upp, en ert ekkert að taka fyrir málefnið sem um ræðir.
Anna Arnardóttir, 21.10.2010 kl. 16:16
Þakka þér Anna fyrir þína ágætu sýn á þessi mál. Sjálfur er ég á báðum áttum og á tiltölulega auðvelt með að sjá réttmætið í sjónarmiðum beggja aðila, þ.e. þeirra sem telja öðrum en kristnum mismunað og þeirra sem eru á móti þessum tillögum.
Ég velti því fyrir mér hvort til sé einhver millivegur sem allir geta sætt sig við.
Doktor ... þú ert allt of einstrengislegur í þinni afstöðu. Það eru ekki allir trúaðir svona öfgafullir, blindir og heilaþvegnir eins og þú vilt vera láta.
Grefill, 21.10.2010 kl. 17:17
Dr.E, ekki eru allir kristnir menn jafn fordómafullir og þú.
Meinhornið, 21.10.2010 kl. 23:09
Úff doctxxxxxx úfff
Anna þakka þér fyrir ágætan pistil. Ég hjó líka eftir þessum orðum hjá Margréti. Ég ætla rétt að vona að hún haldi áfram á þessari braut og losi sig hið snarasta undan áhrifum trúboðs varaformanns nefndarinnar.
Hilmar Einarsson, 22.10.2010 kl. 00:23
Grefill: Ég get vel skilið að þú sért á báðum áttum því ég sé líka alveg pointið hjá hinni hliðinni þó að ég sé ekki sammála þeim.
Ég vildi að ég gæti komið auga á milliveg en ég geri það ekki akkurat núna. Vonandi að við finnum hann með áframhaldandi umræðum á málefnalegum nótum ;o)
Anna Arnardóttir, 23.10.2010 kl. 13:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.