Ef við viljum lýðræði verðum við að taka þátt!

21% kjörsókn kl 17 í dag.

Hvað á það að þýða að sitja heima við eldhúsborðið, rífast, kvarta og kveina yfir stöðu mála og fjórflokkurinn ráði öllu og engu verði breytt ef maður drullast ekki á lappir og gerir eitthvað í málunum þegar loksins gefst tækifæri til?

Ég geri mér grein fyrir að það er óvíst hver útkoman af þessu stjórnlagaþingi verður. Það er ekki víst að alþingi geri nokkuð við þær breytingar sem meðlimir stjórnalagaþingsins vilja sjá og því ekki víst að þetta skili nokkrum árangri. En ef við reynum ekki þá erum við sjálf búin að fella allar breytingar sem þetta gæti haft í för með sér. Ef sárafáir nenna að sinna sínum lýðræðislegum skyldum og kjósa hlýtur Alþingi að þurfa að taka því sem svo að þjóðin vilji ekki hafa neitt um málin að segja. Ef þeir rétta okkur litla putta og við hundsum við honum er ekki víst að við fáum hann nokkurntíman aftur og þá er farin öll von um að geta nokkurntíman gripið alla höndina!

Það er ekki nóg að mæta niður á Austurvöll, grýta eggjum í Alþingishúsið, kveikja í hlutum og berja tunnur og ljósastaura! Það þarf líka að taka ábyrgð og taka þátt í því litla lýðræði sem við þó höfum, annars missum við það úr höndunum líka.

Mér finnst ekki til of mikils ætlast af okkur að kynna okkur þá sem í framboði eru, mæta á kjörstað og skrifa niður nokkur númer. 

Eða eruð þið bara sátt við að láta fjórflokkinn ráða öllu um okkar líf og vinna bara áfram að eigin hagsmunum en hundsa vilja fólksins? Ef svo er þá endilega ekki kjósa - þá sýnið þið fjórflokknum að þið viljið vera undir hælnum á honum og hafið engan vilja til alvöru lýðræðis!


mbl.is 21% höfðu kosið kl. 17
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um tillögur mannréttindanefndar

Nú er ég búin að hugsa og hugsa og velta fyrir mér eins mörgum hliðum á þessu máli og ég mögulega get fundið. Þegar þessi umrædda tillaga kom fyrst fram var ég strax mótfallin henni og það af ýmsum ástæðum, engin þeirra var þó sú að landið okkar myndi hætta að trúa og kirkjan verða tóm ef prestar fengju ekki að tala við skólabörn.

Margar af þeim ástæðum sem ég taldi til hafa hinsvegar verið felldar í gegn um umræður samfélagsins síðustu daga og ekki síst af Margréti Sverrisdóttur sjálfri sem dró í land með nokkrar staðreyndir í Fréttablaðinu í gær. Þar stendur:

Hún [Margrét Sverrisdóttir] segir að ekki sé verið að gera aðför að íslenskri menningu eða hátíðarhaldi almennt. Mögulega hafi tillögurnar um að hætta sálmasöng í skólum ekki verið hugsaðar til enda. Margir þeir trúarlegu sálmar sem sungnir eru í kringum jól séu vissulega hluti af íslenskri hefð og menningu.

„Líklega þarf að skilgreina íslenska menningu frekar," segir hún og bendir á að til að mynda sé ekki hægt að taka Jesú úr jólunum

Ég kom líka með þau rök að ég vildi gjarnan sjá aðila úr öðrum trúfélögum koma inn í skólana með kynningar á sínu starfi og sinni trú til að auka opna umræðu og fræðslu um mismunandi trú og menningu. Sú tillaga fékk ekki góðan hljómgrunn sökum þess að þá væri lítill tími eftir til að sinna öðru og hefðbundnara námi. Þau rök varð ég að taka góð og gild sérstaklega í ljósi þess að stöðugt er verið að skera niður á menntun þessa dagana og skólastundum hefur fækkað undanfarin árin.
Að mínu mati má ekki við mikið meiri röskun á þeim litla tíma sem eftir er.

Ég fór þá að velta fyrir mér afhverju er ég þá samt svo hörð á því að kirkjan mín fái að koma inn í skólana ef ekki er tími fyrir hina söfnuðina að koma. Hvað gefur minni kirkju sérstöðu?

Í fyrsta lagi er það fjöldinn, meirihlutinn tilheyrir þessari kirkju sem er okkar ríkiskirkja – en það finnst mér þó ekki vera nægileg rök fyrir að hleypa kirkjunnar fólki inn í skólann. Hinsvegar eru prestar og djáknar eitthvað það besta fagfólk sem við Íslendingar eigum í alhliða sálusorgun og áfallahjálp. Mannréttindaráð vill fá fagfólk í að sinna þessum störfum en staðreyndin er bara sú að við eigum ekki betra fagfólk en einmitt þá sem eru að sinna þessu núna. Hugsanlegt er að sálfræðingar og geðlæknar gætu sinnt þessu hlutverki en prestarnir hafa ýmislegt fram yfir þá að færa.

Þegar prestur eða djákni hefur komið reglulega í heimsókn í skólann og skólinn hefur farið einu sinni á ári í heimsókn í kirkjuna eru komin ákveðin tengsl á milli. Börn og starfsfólk skólans þekkir prestinn og á ekki jafn erfitt með að leita til hans og einhvers sálfræðings sem það ekki þekkir. Presturinn (eða djákninn) getur þá á auðveldari hátt komið inn í erfið mál sem upp koma. Höfum í huga að það er ástæða fyrir þvi að í hvert sinn sem lögregla þarf að fara í heimahús að tilkynna um dauðsfall er ávallt hafður prestur með í för. Ekki sálfræðingur, heldur prestur.

Þar fyrir utan er þjónusta prestsins frí en ekki sálfræðingsins. Eina leiðin til að fá sálfræðing til að verða jafngildan prestinum í svona áföllum í bekkjum er ef sálfræðingurinn er í vinnu hjá skólanum og hittir nemendur reglulega svo allir viti hver hann er. Þá myndi ekki duga að nota venjulega skólasálfræðinginn því þeir eru yfirleitt sérmenntaðir í þroskasálfræði, sérþörfum barna og fleiru menntatengdu en ekki endilega áfallasálfræði. Ef ráða ætti sérmenntaðan einstakling til að sinna svona málum í skólanum myndi það hafa mikinn kostnað í för með sér og á meðan ekki er hægt að borga kennurum betri laun en nú þegar er og ekki er hægt að leyfa þeim að taka aukavinnu til að mæta með bekknum á bekkjarkvöld sé ég ekki að hægt sé að setja peninga í slík verkefni. Afhverju þá ekki að halda áfram þessari samvinnu við prestana og nýta þeirra sérþekkingu án endurgjalds?

 

Þá komum við inn á umburðarlyndið og mannréttindi einstaklingsins sem ekki er kristinn. Þetta er jú það sem málið á að snúast um. Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að engin mannréttindi séu brotin við það eitt að fá prest í heimsókn sem ræðir við börnin. Presturinn kemur ekki inn til að heimta eitt eða neitt af börnunum og fylgir ævinlega þeim línum sem honum eru settar. (sjá hér: http://www.rvk.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/menntasvid/pdf_skjol/utgafur/leikskolar/ymislegt/truar-_og_lifsskodunarh_pa.pdf ) Ég sé ekki að nein mannréttindi væru brotin á mínu kristna barni ef múslími kæmi inn til að ræða við bekkinn svo lengi sem hann fylgdi þessum línum sem lagðar eru fram í áðurnefndri skýrslu.

 

Umburðarlyndið held ég hinsvegar að bíði skaða ef þessar tillögur verða gerðar að veruleika. Börn læra umburðarlyndi ekki vel uppúr bókum og klípusögum sem notaðar eru í lífsleikni einu sinni í viku. Þau læra umburðarlyndi á að umgangast önnur börn og fólk sem er á einhvern hátt frábrugðið þeim sjálfum í hugsun, hegðun, útliti eða getu. Þetta sést best ef horft er á tvo bekki þar sem í öðrum þeirra er fatlað barn en í hinum eru allir heilbrigðir. Ég vann t.d. á leikskóla þar sem voru tvær eldri barna deildir (3-6 ára). Á annarri þeirri var mikið einhverfur drengur með þroska á við barn á fyrsta ári. Það var merkilegt að horfa á hvað samskipti barnanna á þeirri deild voru mikið fallegri og umburðarlyndari en á hinni deildinni. Þar voru sessunautarnir dæmdir hart fyrir að kunna ekki að teikna almennilegan bíl eða geta ekki búið til flottan hund úr leirkubbi. Sama hvað leikskólakennarnarnir reyndu að skerast í leikinn og segja að þetta væri fínt hjá öllum. Það dugði ekki til. Á deild einhverfa drengsins sátu börnin saman og teiknuðu og hrósuðu hvert öðru og sér í lagi honum sem ekkert gerði nema línur á blað. Þau voru hæst ánægð með sig og sögðu: „Við erum sko listamenn!“

Í garðinum voru þessi börn líka snögg að passa upp á vin sinn ef krakkarnir af hinni deildinni ætluðu eitthvað að fara að stríða honum.

Af þessari ástæðu er ég mjög hlynnt því að getublanda í bekki og hafa fatlaða einstaklinga í bland við heilbrigða (ég er reyndar á þeirri skoðun að það þurfi fleiri kennara og færri nemendur í hvern bekk til að það geti gengið almennilega upp en það er allt annar pistill).

Alveg eins og börnin læra best að bera virðingu fyrir fötluðum einstaklingum þegar þau þekkja einhvern slíkan læra þau líka best að virða ólíkar trúarskoðanir ef þau fá tækifæri til að kynnast fólki og börnum með skoðanir ólíkar þeirra eigin. Þegar nokkrir nemendur geta ekki tekið þátt í kirkjuferðinni og fara í önnur verkefni á meðan er þar kominn tilvalinn grundvöllur til að ræða afhverju þau fara ekki í kirkjuna og hvaða lífsviðhorf eða trúarskoðun sé þar að baki.

 

Þar fyrir utan er nokkuð ljóst að ef enginn á að upplifa sig utanveltu í skólanum þarf að fara mikið lengra með þessar breytingar og langt útfyrir það sem flestir eru tilbúnir til að sætta sig við. Börn Votta Jehóva munu ennþá eiga erfitt í kringum jólin þegar þau fá ekki að föndra eða mæta á litlu jólin. Þau munu ennþá eiga erfitt með að útskýra afhverju þau fá ekki jóla- eða afmælisgjafir og afhverju þau bjóða aldrei neinum í afmæli. Múslímskar stúlkur munu enn eiga erfitt með að vera einu stúlkurnar í skólanum sem eru með slæður yfir hárinu og þau múslimabörn sem fasta í Ramadan mánuði gætu átt erfitt með að útskýra afhverju þau borða ekki mat yfir daginn með hinum nemendunum. Börn sem eru grænmetisætur eiga enn erfitt með að útskýra afhverju þau borða ekki gúllasið í hádeginu eða afhverju þau vilja ekki pepperóní á pizzuna sína og svona mætti lengi telja.


Fjólublár dagur!

Á morgun, miðvikudaginn 20. október, verður haldinn fjólublár dagur til minningar um drengina sem frömdu sjálfsmorð eftir að hafa þolað andlegt og líkamlegt ofbeldi frá jafnöldrum, skólafélögum, foreldrum og jafnvel stjórnmálamönnum í sínum heimabæjum sökum kynhneigðar sinnar. Sumir þeirra voru ekki einu sinni komnir út úr skápnum heldur voru þeir einungis grunaðir um að vera samkynhneigðir. Fólk um allan heim ætlar að klæðast fjólubláum lit til að sýna samhug með þeim sem enn eru að líða fyrir kynhneigð sína. Með því að ganga í fjólubláu á morgun segjum við þeim sem eru í þessari stöðu að við virðum þá fyrir það hverjir þeir eru óháð kynhneigð þeirra. Þeir/þær sem eru að upplifa sig ein í heiminum og finnst enginn skilja sig mega skilja það sem svo að allir sem eru í fjólubláu segja við þau: Þið munuð á lífsleiðinni mæta fólki sem virðir ykkur og elskar fyrir það hver þið eruð, óháð kynhneigð ykkar. Við horfum ekki öll á kynhneigð fyrst og manneskjuna svo.

Mér finnst skelfilegt til þess að hugsa hvað mikið af ungu fólki líður fyrir kynhneigð sína. Við sem eldri erum eigum oft erfitt með að muna hvað allt var skelfing mikið stærra og erfiðara á unglingsárunum. Eitt rifrildi við vinkonuna og vikan var ónýt! Ein bóla á nefinu og maður gat ekki látið sjá sig í nokkra daga! Allt verður svo mikið stærra og meira og hvað þá svona erfið málefni eins og kynhneigð sem jafnvel fullorðnir einstaklingar eiga oft á tíðum erfitt með að eiga við. Fullorðið fólk á líka erfitt með að koma út úr skápnum og fullorðið fólk á oft enn erfiðara með að taka vel á móti þeim sem sýna nægt hugrekki til að gera það. Það er allt annað en auðvelt að standa á eigin fótum og játa að maður tilheyrir minnihlutahóp sem er hæddur og spottaður á góðum dögum víðsvegar um heim.

Sem betur fer er heimurinn aðeins að vakna og ég er stolt af því að landið okkar er i forystu hvað varðar réttindi samkynhneigðra. Ég er stolt af því að kirkjan mín er með ein hjúskaparlög sem ganga jafnt yfir gagnkynhneigða og samkynhneigða. Ég er stolt af því að á Íslandi þótti það ekkert sérlega merkilegt að forsætisráðherrann væri lesbísk þó að erlendir fjölmiðlar veltu sér uppúr því (ég segi ekki að ég sé endilega ánægð með frammistöðu hennar en það er allt annað mál).

Tökum vel á móti þeim sem hafa hugrekki til að koma út úr skápnum  og göngum fagnandi í fjólubláu á morgun til að senda þeim sem ennþá líða erfiðleika sökum kynhneigðar sinnar skilaboð um að við erum á þeirra bandi!

Ég vil að lokum benda ykkur á þetta myndband: http://www.youtube.com/watch?v=ax96cghOnY4
þar sem Joel Burns borgarstjórnarfulltrúi Fort Worth í Texas vekur fólk til umhugsunar um þetta mál


Skerðing mannréttinda en ekki verndun þeirra.

Mannréttindaráð Reykjarvíkurborgar vill fjarlægja allt sem tengist kristinni trú úr leik- og grunnskólum höfuðborgarinnar. Inn í þessu er falið heimsóknir presta í skólann þegar áfall hefur dunið yfir (sem er og hefur verið hluti af áfallaáætlun margra skóla og gefist vel), kirkjuheimsóknir, jólaföndur með myndum af Jesúbarninu og Betlehemstjörnunni, gjafir Gideonfélagsins ofl.

Hvernig getur þetta verið annað en skerðing á mannréttindum? 

Ég fæ ekki séð að mannréttindi barns séu skert ef því er gefin bók. Mannréttindi þess eru frekar skert ef bannað er að gefa því bók. Ég er kristin og vil gjarnan að barnið mitt (sem nú er einmitt í fimmta bekk)  fái gefins Nýja Testamentið. Ef í skólann kæmi Múslimi sem vildi gefa börnunum Kóraninn sæi ég ekkert að því. Ég myndi glöð nota tækifærið til að skoða Kóraninn með dóttur minni til að við gætum fræðst um önnur trúarbrögð og aðra menningarheima, skoðað hvað er sameiginlegt með Islam og Kristni og hvað er ólíkt.

Ef allt sem tengist Kristinni trú er tekið úr grunnskólum er verið að skerða rétt barnanna til að læra um sinn menningarheim. Það er ótal margt í okkar menningu sem byggir á Kristnum gildum og lífsviðhorfum. Við getum ekki skoðað evrópska mannkynssögu og listasögu og skilið hana til fulls nema hafa grundvallarþekkingu á kristinni trú. Það er enginn að tala um að það eigi að vera boðun í skólunum heldur fræðsla. Við getum aldrei skilið aðra menningarheima ef við erum ekki læs á okkar eigin.  

Ef börnunum er bannað að taka þátt í aldagömlum íslenskum Kristnum hefðum er verið að skerða mannréttindi þeirra.


mbl.is Tillögur valda óánægju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Anna Arnardóttir
Anna Arnardóttir
Ég er nú ekki pólitísk en...

Bloggvinir

Eldri færslur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband