Fjólublár dagur!

Á morgun, miðvikudaginn 20. október, verður haldinn fjólublár dagur til minningar um drengina sem frömdu sjálfsmorð eftir að hafa þolað andlegt og líkamlegt ofbeldi frá jafnöldrum, skólafélögum, foreldrum og jafnvel stjórnmálamönnum í sínum heimabæjum sökum kynhneigðar sinnar. Sumir þeirra voru ekki einu sinni komnir út úr skápnum heldur voru þeir einungis grunaðir um að vera samkynhneigðir. Fólk um allan heim ætlar að klæðast fjólubláum lit til að sýna samhug með þeim sem enn eru að líða fyrir kynhneigð sína. Með því að ganga í fjólubláu á morgun segjum við þeim sem eru í þessari stöðu að við virðum þá fyrir það hverjir þeir eru óháð kynhneigð þeirra. Þeir/þær sem eru að upplifa sig ein í heiminum og finnst enginn skilja sig mega skilja það sem svo að allir sem eru í fjólubláu segja við þau: Þið munuð á lífsleiðinni mæta fólki sem virðir ykkur og elskar fyrir það hver þið eruð, óháð kynhneigð ykkar. Við horfum ekki öll á kynhneigð fyrst og manneskjuna svo.

Mér finnst skelfilegt til þess að hugsa hvað mikið af ungu fólki líður fyrir kynhneigð sína. Við sem eldri erum eigum oft erfitt með að muna hvað allt var skelfing mikið stærra og erfiðara á unglingsárunum. Eitt rifrildi við vinkonuna og vikan var ónýt! Ein bóla á nefinu og maður gat ekki látið sjá sig í nokkra daga! Allt verður svo mikið stærra og meira og hvað þá svona erfið málefni eins og kynhneigð sem jafnvel fullorðnir einstaklingar eiga oft á tíðum erfitt með að eiga við. Fullorðið fólk á líka erfitt með að koma út úr skápnum og fullorðið fólk á oft enn erfiðara með að taka vel á móti þeim sem sýna nægt hugrekki til að gera það. Það er allt annað en auðvelt að standa á eigin fótum og játa að maður tilheyrir minnihlutahóp sem er hæddur og spottaður á góðum dögum víðsvegar um heim.

Sem betur fer er heimurinn aðeins að vakna og ég er stolt af því að landið okkar er i forystu hvað varðar réttindi samkynhneigðra. Ég er stolt af því að kirkjan mín er með ein hjúskaparlög sem ganga jafnt yfir gagnkynhneigða og samkynhneigða. Ég er stolt af því að á Íslandi þótti það ekkert sérlega merkilegt að forsætisráðherrann væri lesbísk þó að erlendir fjölmiðlar veltu sér uppúr því (ég segi ekki að ég sé endilega ánægð með frammistöðu hennar en það er allt annað mál).

Tökum vel á móti þeim sem hafa hugrekki til að koma út úr skápnum  og göngum fagnandi í fjólubláu á morgun til að senda þeim sem ennþá líða erfiðleika sökum kynhneigðar sinnar skilaboð um að við erum á þeirra bandi!

Ég vil að lokum benda ykkur á þetta myndband: http://www.youtube.com/watch?v=ax96cghOnY4
þar sem Joel Burns borgarstjórnarfulltrúi Fort Worth í Texas vekur fólk til umhugsunar um þetta mál


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Anna Arnardóttir
Anna Arnardóttir
Ég er nú ekki pólitísk en...

Bloggvinir

Eldri færslur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband